Ýmsar upplýsingar sem tengjast skólastarfinu.
Powered by Google Translate
Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.
Nemendur 1.–7. bekkja fara út í öllum frímínútum. Á skólalóð skulu nemendur sýna aðgæslu og tillitssemi við félaga sína. Gæslu í frímínútum sinna skólaliðar og kennarar ýmist úti eða inni. Ef veður hamlar útivist eru nemendur innandyra undir umsjón kennara og skólaliða.
Ef nemendur yngri deilda þurfa af einhverjum ástæðum að vera inni í frímínútum þurfa þeir að hafa með sér beiðni að heiman til umsjónarkennara, þar sem ástæða óskar um inniveru er tilgreind. Miðað er við að nemandi sé ekki inni í meira en tvo daga eftir veikindi. Nemendur í 1.–7. bekk mega ekki fara út af skólalóð á skólatíma nema með sérstöku leyfi umsjónarkennara eða starfsmanns skólans
Nemendur í 8.–10. bekk hafa leyfi til þess að vera inni í frímínútum og nýta sér aðstöðu í Mosanum, í matsal, á bókasafni og á göngum skólans. Nemendur í 8.-10. bekk mega fara út af skólalóð í frímínútum, hádegishléum og eyðum í stundatöflu.
Heimanám miðast við vinnu á virkum dögum og vikuáætlun sem finna má í Mentor. Heimanámsverkefni getur verið undirbúningur fyrir næstu kennslustund, að ljúka verkefni sem ekki tókst að ljúka í skóla, samvinnuverkefni nemenda eða önnur verkefni sem kennari setur fyrir. Nemendur fá endurgjöf eða einkunnir fyrir heimanámið.
Nemendur bera ábyrgð á sínu heimanámi og eiga að skila heimanámsverkefnum vel unnum og á réttum tíma.
Reynt er að taka vel á móti nýjum nemendum þannig að fyrstu kynni þeirra og foreldranna af skólanum veiti þeim öryggi og vellíðan og þeim finnist þeir velkomnir í skólann.
Foreldrar skrá barn sitt í skólann á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar. Ef nemandi er að koma úr öðru sveitarfélagi, eða erlendis frá, þarf að skrá barnið á skrifstofu skólans á þar til gerðum eyðublöðum.
Áður en nemandinn byrjar í skólanum boðar deildarstjóri nemanda og foreldra hans á kynningarfund og sýnir þeim um skólann. Undantekning getur verið á ef nemandi þarf að byrja í skólanum nær fyrirvaralaust.
Þegar nýr nemandi kemur inn í bekk er hann kynntur fyrir bekknum áður en hann kemur og umsjónarkennari útnefnir 2–4 leiðsögumenn úr bekknum fyrir nemandann. Reynt er að hafa þá ekki alla af sama kyni. Hlutverk þeirra er að passa upp á að nýi nemandinn sé ekki einn og fái allar upplýsingar sem hann þarf.
Umsjónarkennari kynnir nemandann fyrir öðru starfsfólki, eins og sérgreinakennurum, stuðningsfulltrúum og skóla- og frístundaliðum.
Innritun í grunnskóla Hafnarfjarðar
Það er stefnan í Hraunvallaskóla að bjóða ávallt upp á hollan og góðan heimilismat. Ef nemendur eru með ofnæmi fyrir einhverjum matvælum er mikilvægt að upplýsa skólann og þau sem sjá um matinn um það.
Öllum grunnskólabörnum í Hafnarfirði er boðið upp á hafragraut 20 mínútum fyrir fyrstu kennslustund. Grauturinn er borinn fram í matsalnum frá 07:55–08:30.
Hægt er að skrá barn gjaldfrjálst í heitan mat í hádeginu sem Skólamatur sér um. Matseðill fyrir vikuna birtist á vef skólans og Skólamatar. Nemendur borða í sal skólans og er þeim skipt í þrjá hópa. Nemendur leikskólans borða einnig í matsalnum.
Í byrjun skólaárs þarf að skrá barn í mataráskrift á vefsíðu Skólamatar. Áskriftin framlengist sjálfkrafa um 1 mánuð, nema ef áskrift er sagt upp eða breytt.
Lögð er áhersla á næringu barna, umhverfissjónarmið og matarsóun. Allir matseðlar eru næringarútreiknaðir og farið eftir ráðleggingum embættis Landlæknis.
Nemendur sem kjósa að vera ekki í mataráskrift geta komið með nesti að heiman og borðað í matsalnum þar sem er aðgangur að örbylgjuofni og samlokugrillum.
Á morgnana er hressing og hægt er að kaupa áskrift af ávöxtum- og grænmeti hjá Skólamat.
Hraunvallaskóli notar náms- og upplýsingakerfið Mentor þar sem nemendur geta séð stundatöfluna sína, fylgst með ástundun og námsframvindu. Foreldrar og nemendur hafa aðgang að kerfinu með kennitölu og lykilorði. Foreldrar hafa sama aðgang og nemendur auk þess að geta fylgst með skráningum í dagbók nemandans.
Foreldrar geta haft samband með tölvupósti við foreldra barna í bekk barnsins síns og kennara skólans í gegnum Mentor, tilkynnt veikindi og leyfi sem eru 2 dagar eða styttri, bókað viðtöl við kennara og fleira.
Megintilgangur námsmats er að örva nemendur, aðstoða þá við námið, kenna þeim að meta eigin frammistöðu og mæla sig við sett markmið. Námsmat á að vera leiðbeinandi, uppörvandi og uppbyggjandi.
Námsmat í hverjum árgangi er útlistað í námskrá fyrir hvern árgang. Þar kemur fram á hverju námsmatið byggist og hvernig það er útfært í hverri grein. Reynt er að upplýsa foreldra sem oftast um framgang námsins hjá barni þeirra.
Birting námsmatsins getur verið breytileg eftir árgöngum en allir nemendur fá einkunnir og umsagnir í lok anna. Við lok hvers skólaárs er prentað út sérstakt vitnisburðarblað með námsmati vetrarins.
Yfir veturinn er birting á námsmati meðal annars í verkefnabókum og námsmatsmöppum á Mentor, undir námsmati. Verkefnabók er með einkunnir úr könnunum eða kaflaprófum og þar er einnig rúm fyrir umsagnir. Kennarar opna fyrir aðgang nemenda og foreldra jafnóðum og þeir færa inn mat á námi nemenda.
Í námsmatsmöppum má finna námsmatið sem fram fer samkvæmt skipulagi viðkomandi kennara, eins og prófum, verkefnum, sýnishornum af vinnu nemenda, skýrslum og matsblöðum.
Nemendur í 8.–10. bekk hafa kost á að fá nemendaskáp frá skólabyrjun til skólaloka. Nemandi útvegar sjálfur lás til að læsa sínum skáp. Ef nemandi gerist brotlegur varðandi notkun og umgengni um nemendaskáp missir hann skápinn sinn og jafnvel rétt til að fá nemendaskáp í framtíðinni.
Oft safnast töluvert af óskilafatnaði á göngum skólans. Ef fötin eru merkt komast þau strax til skila og því mikilvægt að merkja föt barnanna. Skóla- og frístundaliðar leggja sig fram um að koma óskilafatnaði og töskum í réttar hendur.
Óskilamunir eru teknir fram og eru sýnilegir á samtalsdögum þegar búist er við foreldrum í skólann. Foreldrar geta líka komið við í skólanum hvenær sem er ef þeir sakna einhvers.
Fatnaður sem er ósóttur eftir lok hvers skólaárs er gefinn til Rauða krossins.
Nemendur í grunnskólum í Hafnarfirði fá ókeypis stílabækur, möppur og önnur ritföng sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi. Nemendur þurfa að koma með ákveðin ritföng í skólann en það er mismunandi eftir því í hvaða árgangi þeir eru. Námsbækur eru ókeypis eins og alltaf hefur verið.
Foreldrar þurfa aðeins að sjá börnum sínum fyrir skólatösku, sund- og íþróttafatnaði og ákveðnum ritföngum.
Markmiðið er að draga úr kostnaði foreldra við nám barna sinna, tryggja jafnræði, nýta fjármuni betur og draga úr sóun.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og skólayfirvöld.
Mikilvægt er að foreldrar/forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.
Í Hraunvallaskóla fá allir nemendur í 5.— 10. bekk spjaldtölvu til afnota.
Nemendur í 5.–7. bekk geyma spjaldtölvurnar að mestu í skólanum. Spjaldtölvurnar eru geymdar í sérstökum skáp þar sem þær eru hlaðnar yfir nótt. Kennari getur þó beðið nemendur um að taka spjaldtölvu með heim ef þörf er á til að vinna ákveðin verkefni. Nemendur í 8.–10. bekk fara með spjaldtölvurnar heim í lok skóladags og koma með þær hlaðnar næsta skóladag. Mikilvægt er að tölvan sé alltaf fullhlaðin í byrjun dags þar sem hún er mikið notuð í kennslu og hætta á að tölvan eða hleðslutæki skemmist við að hlaða á göngum og í skólastofum. Ef það gerist þurfa foreldrar að útvega skólanum nýtt tæki.
Við lok hvers skólaárs skila nemendur spjaldtölvunni ásamt hleðslutæki til skólans til geymslu yfir sumarið.
Í Hraunvallaskóla er leitast við að bjóða upp á fjölbreytt val fyrir nemendur í unglingadeild þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og komið sé til móts við þarfir nemenda.
Valnámskeiðin eru kennd í þriggja anna kerfi þar sem hvert námskeið er kennt í 80 mínútur einu sinni í viku. Nemendur geta valið sér allt að 6 valgreinar yfir skólaárið, 2 á hverju valtímabili. Hver valgrein er kennd að jafnaði í 2×40 mínútur, sem gerir 160 mínútur á viku. Námsmat er í öllum valgreinum. Gefið er lokið eða ólokið fyrir valið en bókstafir fyrir hæfniviðmið.
Nemendur geta fengið metið nám utan skólans sem 2 kennslustundir á viku í staðinn fyrir valgrein. Ef nemandi stundar tvær íþróttagreinar eða nám utan skóla má fá 4 kennslustundir metnar.
Dæmi:
Til að staðfesta þátttöku í utanskólavali þarf að senda tölvupóst því til staðfestingar til náms- og starfsráðgjafa á [email protected]. Nemendur og foreldrar bera fulla ábyrgð á þessum skilum til að starfið fáist metið.
Foreldrar þurfa að tilkynna veikindi gegnum Mentor eða á skrifstofu skólans í síma 590 2800 fyrir 8:30. Ef það er ekki gert er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða. Standi veikindi yfir í nokkra daga á að tilkynna þau fyrir hvern dag.
Leyfi í 2 daga eða minna er hægt að tilkynna í Mentor, með tölvupósti eða hringja í skólann í síma 590 2800.
Leyfi fyrir 3 daga eða fleiri þarf að tilkynna sérstaklega á vefsíðu skólans. Skólinn gefur ekki út sérstakt heimanám eða sérverkefni til nemenda í leyfum né gerir tilfærslur á námi. Allt nám er á ábyrgð forsjáraðila meðan á leyfi stendur.
Stafrænar öryggismyndavélar eru utanhúss í skólanum og við suma innganga. Markmiðið er að hafa rafræna vöktun á skólabyggingunni og skólalóðinni í öryggisskyni og til varnar því að eigur séu skemmdar eða þeim stolið.
Upptökur eru einungis skoðaðar ef upp koma atvik varðandi eignavörslu eða öryggi einstaklinga, eins og þjófnaður, skemmdarverk eða slys. Heimild til skoðunar er aðgangsstýrð en myndefni er vistað að hámarki í 90 daga og eytt að þeim tíma loknum.
Vöktunin er útfærð í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Merkingar með viðvörunum um rafræna vöktun eru uppsettar á vöktuðu svæðunum.