Teymiskennsla Hraunvallaskóli starfar eftir hugmyndafræði opna skólans og er byggingin hönnuð með það í huga. Kennslan er miðuð við að mæta ólíkum þörfum einstaklinga sem setja sér eigin námsmarkmið, læra að skipuleggja nám sitt sjálfir og meta árangur sinn. Í kennsluskipulagi er lögð áhersla á skipulag sem byggir á hópavinnu, þemanámi, einstaklingsvinnu, þrautalausnum, gagnrýnni hugsun og færni nemenda til að afla sér þekkingar og nýta sér nýjustu upplýsinga- og samskiptatækni í því skyni. Kennarar vinna saman í teymum í kennslustundum og við skipulagningu og undirbúning kennslunnar. Nemendur í sama árgangi eru saman í skólastofu í umsjónarhópum með sameiginlega umsjónarkennara og heimasvæði. Kennsluskipulag á yngsta og miðstigi Í 1.–7. bekk er áhersla lögð á sameiginlega umsjón og ábyrgð á nemendahópum. Umsjónarkennarar eru tveir eða þrír. Með teymisvinnu og kennaraþrennu eða paraumsjón er álag á kennara jafnað og aukinn sveigjanleiki í skipulagningu. Þetta fyrirkomulag gefur nemendum einnig möguleika á að kynnast fleiri félögum og eflir samvinnu nemenda í árgangi. Kennsluskipulag á unglingastigi Skólaárið 2022–2023 hófst þróunarverkefni um breytt kennsluskipulag á unglingastigi. Markmið þess er að: Að skipuleggja skólastarf á unglingastigi í anda opins skólastarfs. Að stuðla að samþættingu námsgreina og samvinnu kennara. Að efla samvinnu kennara og nemenda. Að efla samvinnu og sjálfstæði nemenda. Lagt er upp með kennslu innan árgangs þar sem faggreinakennsla, samþættingarverkefni og vinnustundir eru í öndvegi. Kennarar vinna náið saman við undirbúning og framkvæmd kennslunnar. Bókleg kennsla á unglingastigi skiptist í faggreinakennslu (samkvæmt viðmiðunarstundaskrá), Hraunflæði og vinnustundir. Hraunflæði er samþættingarlotur sem eru allt skólaárið. Lagt er upp með að samþætta út frá íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og lífsleikni. Áhersla er á upplýsingatækni og skapandi vinnubrögð. Hraunflæði er kennt allt skólaárið en hvert Hraunflæði getur tekið 1 til 5 vikur. Kennarar vinna sameiginlega að undirbúningi og þróun Hraunflæða í samvinnu við deildarstjóra. Vinnustundir eru tímar þar sem nemendur geta unnið sjálfstætt eftir áætlun undir stjórn kennara. Árgangur er saman á svæði á sama tíma og faggreinakennarar eða umsjónarkennarar eru til staðar og leiðbeina.