Samstarf við aðra skóla

Nám og kennsla

Framhaldsskóli

Nemendur í 10. bekk geta valið stærðfræði 103 sem er kennd í Flensborgarskóla. Áfanginn er 3 kennslustundir og er heilsárskúrs.

Frá nóvember til febrúar eru námsbrautir framhaldsskólanna, inntökuskilyrði og innritunarferli kynnt fyrir nemendum 10. bekkjar.

Janúar

Framhaldsskólakynning í Hafnarfirði þar sem allir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu kynna sína skóla. Kynningin er í sal Flensborgarskóla og sjá námsráðgjafar grunnskólanna og Flensborgarskóla um skipulag.

Febrúar

Fulltrúar frá Flensborgarskóla og Iðnskólanum koma með ítarlegar kynningar á námsbrautum og námsfyrirkomulagi inn í 10. bekkina.

Fundað með foreldrum nemenda sem sækja um á starfsbrautum og farið með viðkomandi nemendur í heimsóknir í skólana sem þeir sækja um í. Gengið er frá þessum umsóknum.

Febrúar – apríl

Opin hús hjá framhaldsskólunum sem eru vel kynnt fyrir nemendum og foreldrum. Nemendur eru hvattir til að fara á opnu húsin.

Mars

Kynningafundur fyrir foreldra þar sem námsráðgjafi kynnir námsbrautir, inntökuskilyrði og innritunarferli.

Mars – apríl

Forinnritun í framhaldsskóla sem er kynnt fyrir nemendum. Námsráðgjafi fylgist með því að nemendur sæki um skóla og aðstoðar eftir þörfum.

Maí – júní

Lokainnritun og fylgir námsráðgjafi því eftir með nemendum og aðstoðar nemendur og foreldra eftir þörfum. Námsráðgjafi er oft í sambandi við námsráðgjafa framhaldsskólanna, fundar með foreldrum og nemendum og skrifar bréf með einstökum nemendum.

Námsráðgjafi fundar með rektorum og námsráðgjöfum Flensborgarskóla og Iðnskólans og fylgir eftir nemendum sem þess þurfa.

Nemendur með sérþarfir

Samstarf er við framhaldsskóla vegna nemenda með sérþarfir þegar líður að lok grunnskóla. Í því felst að undirbúa þátttöku fatlaðra nemenda fyrir nám í framhaldsskóla. Tilfærsluáætlun er útbúin fyrir þá nemendur sem grunnskóli og foreldrar meta að þurfi sérúrræði í framhaldsskóla. Sjá nánar í starfsáætlun IV kafla.

Háskóli Íslands

Hraunvallaskóli er með samning við Menntavísindasvið Háskóla Íslands varðandi samstarf um kennaramenntun. Skólinn tekur við átta kennaranemum að jafnaði á ári í vettvangsnám. Um er að ræða æfingakennslu, kynnisheimsóknir, þátttöku í undirbúningi og kennslu, athuganir á skólastarfi og fleira sem varðar skólastarf almennt.

Tengsl samstarfsskóla eins og Hraunvallaskóla við Menntavísindasvið Háskóla Íslands skapa möguleika á samstarfi varðandi kennslu faggreina, samstarf um þróunarverkefni og rannsóknir.

Leikskóli

Í Hraunvallaskóla er einnig starfandi leikskóli undir sama þaki. Samstarf milli skólastiganna hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi og segja má að nemendur hefji skólagöngu sína við 18 mánaða aldur og ljúki henni við 16 ára aldur.

Afrakstur þróunarverkefnisins birtist meðal annars í skipulögðu samstarfi elstu barna leikskólans og 1. bekkja sex sinnum á skólaárinu, á tímabilinu september til febrúar. Í mars koma aðrir leikskólar hverfisins í heimsókn og í maí fá væntanlegir nemendur í 1. bekk næsta skólaár kynningu á skólanum.

Einnig er haldinn fyrri hluti skólafærninámskeiðs fyrir foreldra og forsjáraðila verðandi 1. bekkinga. Leikskólinn á ákveðna vinabekki. 5. bekkur er vinabekkur við yngri deildir leikskólans og 6. bekkur vinnur með elstu börnum leikskólans að útskriftarverkefni á vormánuðum.