Einelti

Skólinn

Í Hraunvallaskóla er lögð áhersla á jákvæð og uppbyggjandi samskipti. Í samræmi við þessa sýn lýsir starfsfólk, nemendaráð, foreldrafélag og foreldraráð Hraunvallaskóla því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verði liðið í skólanum.

Í skólanum er leitað allra ráða til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og reynt að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Hraunvallaskóli á að vera öruggur staður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju. Það er samstarfsverkefni heimila og skóla að stuðla að velferð nemenda þar sem einelti á aldrei rétt á sér.

Tilkynna grun um einelti

Mikilvægt er að allir þeir sem hafa vitneskju um eineltismál tilkynni það til skólans svo hægt sé að vinna markvisst að því að stöðva eineltið.

Nemandi, forsjáraðilar eða starfsfólk geta tilkynnt einelti til umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnanda skólans. Tilkynningunni er komið til eineltisteymis sem ákveður ábyrgðaraðila úr teyminu til að kanna málið.

Vinnuferli

  • Umsjónarkennari er upplýstur.
  • Rætt við barn sem upplifir einelti
  • Leitað er upplýsinga hjá forsjáraðilum þolanda, öðrum nemendum og starfsfólki.
  • Rætt við meintan geranda og leitað upplýsinga hjá foreldrum hans.
  • Tengslakönnun og samskiptaathugun er lögð fyrir bekkinn eða árganginn.
  • Starfsfólk sem tengist þolanda er upplýst.

Ef könnun leiðir til þess að um einelti sé að ræða er unnið að úrlausn.

Áframhaldandi vinnuferli

  • Einstaklingsviðtöl við þolanda og geranda.
  • Skipulagðar ráðstafanir með forsjáraðilum þolanda og geranda.
  • Bekkjarfundir og fræðsla
  • Foreldrafundur nemanda í bekknum eða önnur eftirfylgni.
  • Ef einelti hættir ekki er málinu vísað til nemendaverndarráðs.

Skilgreining á einelti

Einelti er síendurtekið áreiti sem beinist að sama aðila í lengri eða skemmri tíma. Í einelti felst misbeiting á valdi þar sem þolandi getur ekki varið sig. Einelti á sér stað milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps.

Dæmi um einelti

  • Líkamlegt einelti. Hvers konar líkamlegt áreiti svo sem barsmíðar, slagsmál, hártoganir og spörk.
  • Andlegt einelti. Endurtekin stríðni, höfnun, svipbrigði, skilaboð og fleira, til dæmis að skilja út undan, tala illa um, ógna og hæða.
  • Stafrænt einelti. Þegar netið, tölvur eða sími eru notuð til að tjá eitthvað niðrandi og meiðandi um einstakling. Stafrænt einelti hefur aukist síðustu ár og er oft meira falið en annað einelti. Gagnlegar upplýsingar um stafrænt einelti má finna á vefsíðu SAFT og á 112.is. 

Vísbendingar um einelti

Hugsanlega getur verið um einelti að ræða ef barn:

  • er hrætt við að ganga eitt í skólann eða heim
  • fer aðra leið í skólann en vanalega
  • vill ekki fara í skólann
  • kvartar oft undan vanlíðan á morgnana, til dæmis höfuðverk og magaverk
  • byrjar að skrópa í skólann
  • hættir að sinna náminu, einkunnir lækka
  • kemur heim með rifin föt og skemmdar námsbækur
  • er sífellt að „týna“ eigum sínum
  • missir sjálfstraust, byrjar jafnvel að stama
  • fitnar eða grennist mikið
  • leikur sér ekki við önnur börn og jafnvel forðast þau
  • neitar að segja frá því hvað amar að
  • kemur heim með marbletti eða skrámur sem það getur ekki útskýrt
  • verður árásargjarnt og erfitt viðureignar.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

  • Samskipta- og tengslakannanir. Tilgangurinn er að afla upplýsinga um samskipti og líðan og bregðast við í samræmi við niðurstöður.  Könnun er lögð fyrir hvern árgang minnst einu sinni á ári en auk þess eru sérstakar kannanir lagðar fyrir einstaka hópa þegar þess þarf.
  • Lífsleikni. Í hverjum árgangi er unnið að bættum samskiptum, meðal annars í gegnum lífsleikni. Þar eru gildi skólans, vinátta – samvinna – ábyrgð, höfð að leiðarljósi.
  • Fræðsla og umræða. Á haustin er eineltisáætlun skólans ásamt fræðslu um skilgreiningu kynnt á skólakynningu foreldra hvers árgangs. Ýmis fræðsluerindi á vegum skólans og foreldrafélagsins eru fengin inn í skólann.
  • Virkt eftirlit. Gott eftirlit þar sem nemendur koma saman, eins og í frímínútum, íþróttahúsum, ferðalögum, matsal og kennslustofum.

Samskipta- og eineltisteymi

Samskipta- og eineltisteymi Hraunvallaskóla kemur saman á tveggja vikna fresti eða oftar eftir þörfum.

  • Teymisstjóri er Guðbjörg Inga Guðmundsdóttir, deildarstjóri miðdeildar
  • Hjördís Bára Gestsdóttir, deildarstjóri unglingadeildar
  • Linda Hrönn Helgadóttir, deildarstjóri yngri deildar
  • Guðný Eyþórsdóttir, náms- og starfsráðgjafi. 

Hlutverk samskipta- og eineltisteymis

Hlutverk teymisins er fyrst og fremst að vera leiðbeinandi aðili við lausn samskipta- og eineltismála. Teymið vinnur auk þess ýmiss konar forvarnarstarf gegn einelti. Fulltrúar teymisins eru kennurum til aðstoðar í vinnslu eineltismála. Sé samskiptamál svo alvarlegt að kennari telur fullreynt að hann geti leyst það sjálfur getur hann vísað málinu til teymisins sem grípur þá til frekari aðgerða. Teymið getur svo vísað málum til nemendaverndarráðs ef það telur þess þörf.